mánudagur, júlí 21, 2008

Krísa í herðbúðum Mannsa FF - Nýr lágpunktur í sögu félagsins.

Fyrir þá liðsmenn sem ekki vita, þá mættu heilir þrír leikmenn til leiks í gær í það sem átti að vera næst síðasti leikur liðsins á tímabilinu. Lítið annað var því í stöðunni en að gefa leikinn og 4. tap liðsins í röð óumflýjanlegt. Ekki ætla ég svo sem að geta mér til þess hvað í skrattanum liðsmenn voru að gera sem þeir álitu mikilvægara en að spila umræddan leik, en vona einungis að fjarveru þeirra megi rekja til einhvers meira heldur en líffræðilegra afleiðinga þess að hafa innbyrt ótæpilegt magn af áfengi daginn áður. Eins og kom fram í síðasta pistli er það ekki venja hjá félaginu að draga úr áhuga manna á að refsa lifrinni sinni, svo lengi sem það kemur ekki niður á mætingu í leiki. Ekkert mál þó það dragi úr frammistöðu manna, en eðlileg krafa að þeir mæti í helvítis leikinn. Og ef þið sjáið ykkur ekki fært um að mæta, þá verðiði í það minnsta að hafa tillitssemina til að tilkynna fjarveru ykkar annað hvort hér á síðunni eða með einu sms-i til liðsstjórans Ásgeirs Einarssonar. Það er ekkert sérstakt áhugamál hjá mér að vakna snemma á sunnudagsmorgni drullu þunnur til þess eins að fara í bíltúr upp í Breiðholt.

Þetta er, eftir því sem ég man best, í fyrsta skipti í sögu félagsins sem að við höfum þurft að gefa leik vegna manneklu. Oft og mörgum sinnum hefur verið erfitt að ná í lið, en þó ávallt tekist á endanum. Hér er því um að ræða nýjan lágpunkt í sögu félagsins sem að ekki er ástæða til að endurtaka nokkurn tíman aftur. Það jákvæða í þessu öllu saman, ef reynt er að finna e-ð, er þó sú staðreynd að við komumst alla vegana ekki mikið neðar og ætti því leiðin að liggja upp á við héðan í frá. Nú kemur nokkuð gott hlé fyrir næsta leik sem er ekki fyrr en 8. ágúst. Legg ég til við fjölmennum í þann leik ekki síst vegna þess að planið er að taka lokahóf liðsins um kvöldið sama dag. Hvet ég því menn til að staðfesta mætingu sína í lokahófið sem fyrst svo að unnt verði að skipuleggja það almennilega og gera sem veglegast.

Spurning hvort að ekki sé líka kominn tími á "æfingu" hjá liðinu. Reyna kannski að taka bolta á miðvikudaginn ef stemning er.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim